Erlent

Milljarðamæringur hefur ekki gefið sig fram

Breskur lottóspilari sem fékk ríflega 20 milljarða króna í vinning þegar stóri potturinn í Evrópulottóinu kom á einn miða fyrir níu dögum hefur ekki gefið sig fram. Það eina sem liggur fyrir er að miðinn var keyptur í Coventry.

Potturinn í Evrópulottóinu eða Euromillions var 113 milljónir punda eða tæplega 20 milljarðar króna. Vinningurinn er einn sá stærsti sem komið hefur upp á einn miða í Evrópulottóinu.

Níu Evrópulönd taka þátt í Evrópulottóinu. Þau eru Austurríki, Belgía, Bretland, Frakkland, Írland, Lúxembúrg, Portúgal, Spánn og Sviss.

Verði vinningshafinn ófundinn eftir viku verða birtar nánari upplýsingar um vinningsmiðann. „Það er ekkert óeðlilegt við þetta. Fólk fer í frí eða kaupir miða um leið og það gerir helgarinnkaupin og er ef til vill ekki búið að yfirfara lottómiðann sinn," hefur Sky-fréttastofan eftir talsmanni Evrópulottósins í Bretlandi.

Hafi vinningshafinn ekki gefið sig fram 180 dögum eftir útdráttinn rennur vinningsféð til breskra æskulýðs- og góðgerðafélaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×