Viðskipti innlent

Gömlu valdablokkirnar heyra sögunni til

Gylfi Magnússon
Gylfi Magnússon
Viðskiptablokkirnar sem tröllriðu samfélaginu í áratug fyrir efnahagshrunið eru fallnar og arftakar þeirra að taka við.

„Við verðum í millibilsástandi þangað til fjárhagsleg endurskipulagning hinna ýmsu fyrirtækja verður lokið. Þangað til munu fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir verða fyrirferðamikil í viðskiptalífi og hið opinbera leika stærra hlutverk en áður," segir Gylfi Magnússon, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra.

Gylfi tók virkan þátt í endurreisnarstarfinu eftir bankahrunið, var annar tveggja ráðherra utan þings sem settust í ráðherrastól í bráðabirgðastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna í febrúar í fyrra nokkrum dögum eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar liðaðist í sundur í kjölfar þess að Björgvin G. Sigurðsson, forveri Gylfa, vék forstjóra Fjármálaeftirlitsins frá störfum og sagði sjálfur af sér. Gylfi stóð upp úr stólnum í september síðastliðnum og hefur nú snúið aftur í háskólann.

Ráðherrann fyrrverandi segir að þótt svo virðist sem fátt hafi breyst í viðskiptalífinu sé raunin önnur. „Þeir sem stjórnuðu gömlu viðskiptablokkunum fóru með þeim. Þótt sum fyrirtækin líti svipað út og áður eru oftar en ekki komnir nýir eigendur og stjórnendur," segir Gylfi og reiknar með að þegar rykið eftir efnahagshrunið setjist muni breytingin í viðskiptalífinu koma í ljós. „Við erum ekki enn komin á endastöð með það," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×