Erlent

Námuverkamenn í Chile fá sálfræðiaðstoð í gegnum talstöð

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Verið er að reyna að bora göng í áttina að mönnunum. Mynd/ afp.
Verið er að reyna að bora göng í áttina að mönnunum. Mynd/ afp.
Fimm námuverkamenn í prísundinni í Chile munu njóta sálfræðimeðferðar í gegnum talstöð. Mennirnir eru farnir að sýna merki um þunglyndi. Mennirnir fimm eru í hópi þrjátíu og þriggja námuverkamanna sem festist á 700 metra dýpi þegar námagöng féllu saman fyrir um þremur vikum síðan.

Mennirnir fundust 22. ágúst síðastliðinn, en síðan þá hafa öll samskipti þeirra við umheiminn verið um örmjó göng sem boruð voru til þeirra.

Verið er að setja saman þungavinnuvélar frá Spáni og Ástralíu sem koma til með að bora flóttagöng til mannanna, en talið er að mennirnir gætu losnað úr göngunum fyrir jól.

Yfirvöld hafa lýst miklum áhyggjum af geðheilsu mannanna, en breska ríkisútvarpið hefur eftir heilbrigðisráðherra Chile að fimm þeirra sýni merki um þunglyndi. Þeir borði illa og hafi neitað að koma fram á myndbandi sem námamennirnir gerðu fyrir fjölskyldur sínar.

Ráðherrann segir að sálfræðingar muni reyna að veita mönnunum meðferð frá yfirborðinu í gegnum talstöðvakerfi.

Þá er unnið að því að útbúa æfinga- og tómstundadagskrá fyrir alla mennina í prísundinni, svo þeir geti haldið sér í formi jafnt líkamlega sem andlega, en þeim er einnig sagt að gera mun á nóttu og degi þó stöðugt myrkur ríki í göngunum.

Von er á læknum frá geimferðastofnuninni NASA í næstu viku til aðstoðar heilbrigðisstarfsfólki á staðnum, en þeir eru sérfræðingar í því að huga að heilsu geimfara í þröngu rými um langa hríð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×