Innlent

Kópavogur: Fullur vilji til að ljúka meirihlutamyndun

Fulltrúar S,V,Y og X lista í Kópavogi segja í yfirlýsingu sem send var út í nótt að þeir standi sameiginlega að meirihlutaviðræðum í bænum og að talsmenn framboðanna hafi fullan vilja til að ljúka því verkefni. Í gær bárust þær fregnir að snurða hefði hlaupið á þráðinn í viðræðum á milli Samfylkingar, VG, Næstbesta flokksins og Y - lista Kópavogsbúa.

Eitt aða baráttumál síðastnefnda listans var að ráðinn yrði faglegur bæjarstjóri. Í gærkvöldi var hinsvegar haft eftir fólki af listanum að Guðríður Arnardóttir hafi sóst hart eftir því að verða bæjarstjóri en hún er oddviti Samfylkingarinnar. Ásdís Ólafsdóttir, ein af stofnendum framboðsins sagði í samtali við Vísi í gærkvöldi að Y-listinn gæti aldrei samþykkt þá kröfu.

Í yfirlýsingunni sem send var í gærkvöldi segir í lokin að Kópavogsbúar hafi kosið sér nýjan meirihluta og að það sé skylda þeirra að tryggja að það gangi eftir. Ekkert er hinsvegar vikið að spurningunni um bæjarstjórastólinn.






Tengdar fréttir

Oddviti Samfylkingar: „Ég er mjög bjartsýn“

„Það hafa ekki komið upp nein ágreiningsmál enn þá," segir Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi í samtali við Vísi.is. Viðræður milli Samfylkingar, Næst besta flokknum, Lista Kópavogsbúa og Vinstri grænna munu halda áfram í dag um hugsanlegt meirihlutasamstarf. Það yrði í fyrsta skiptið í tuttugu ár sem Sjálfstæðisflokkur og Framsókn fara ekki með völd í bænum, ef flokkarnir ná að mynda meirihluta.

Meirihlutaviðræður langt komnar í Kópavogi

Meirihlutaviðræður Samfylkingar, Vinstri grænna, lista Kópavogsbúa og Næsta besta flokksins í Kópavogi eru langt á veg komnar. Fulltrúar flokkanna funduðu í gær og búist er við áframhaldandi fundarhöldum í dag.

Y-listinn: Getum ekki samþykkt Guðríði sem bæjarstjóra

„Guðríður vill verða bæjarstjóri, og það viljum við alls ekki," segir Ásdís Ólafsdóttir, Y-lista Kópavogsbúa. Eins og hefur komið fram hafa Samfylkingin, Vinstri grænir, Næst besti flokkurinn og Y-listi Kópavogsbúa, fundað síðustu daga um myndun meirihluta í Kópavogi. Flokkarnir hættu að funda klukkan fimm í dag og segir Ásdís að ekki náist samkomulag um hver fær bæjarstjórastólinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×