Erlent

Fólk verður flutt í tjaldbúðir

Langar biðraðir Haítíbúar bíða í biðröð eftir matarpökkum hjá dreifingarstöð Sameinuðu þjóðanna. nordicphotos/AFP
Langar biðraðir Haítíbúar bíða í biðröð eftir matarpökkum hjá dreifingarstöð Sameinuðu þjóðanna. nordicphotos/AFP

Stjórnvöld á Haítí ætla að hjálpa um 400 þúsund manns að flytja úr höfuðborginni Port-au-Prince í nýjar tjaldborgir utan við borgina. Tilgangurinn er sá að koma í veg fyrir að smitsjúkdómar breiðist út meðal borgarbúa, sem hafa þurft að hola sér niður hvar sem þeir geta eftir að harður jarðskjálfti lagði borgina nánast í rúst snemma í síðustu viku.

Tjaldborgirnar verða mun öruggari vistarverur með hreinlætisaðstöðu sem á að tryggja að heilsu fólks sé ekki stefnt í voða.

Nú þegar hafa að minnsta kosti 200 þúsund manns flúið borgina á troðfullum langferðabílum og ferjum, og margir bara fótgangandi. Flestir reyna að komast til ættingja sinna í sveitahéruðum landsins.

Rétt utan við borgina hafa risið meira en 500 hverfi bráðabirgðaskýla sem fólk hefur tjaslað saman úr pappa, spýtum, teppum og hverju öðru sem til fellur. Þar búa nú hátt í 500 þúsund manns.

Björgunarfólk telur litlar líkur á að fleiri finnist á lífi í rústunum. Jarðskjálftinn, sem mældist 7,0 stig, varð líklega um 200 þúsund manns að bana. Um 250 þúsund manns hlutu misalvarleg meiðsli og um tvær milljónir misstu húsaskjól. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×