Erlent

Útlimir teknir af án svæfinga

Kim Jong-Il
Kim Jong-Il
Læknar í Norður-Kóreu neyðast til þess að fjarlægja útlimi fólks án þess að það fái svæfingu og þurfa að vinna við kertaljós án nauðsynlegra lyfja, hita og rafmagns. Þetta segir í skýrslu Amnesty International um ástand heilbrigðiskerfisins.

Skýrslan byggist á viðtölum við rúmlega fjörutíu Norður-Kóreubúa sem hafa flúið til nágrannalandsins Suður-Kóreu. Einnig voru tekin viðtöl við forsvarsmenn stofnana og heilbrigðisstarfsfólks sem hefur unnið með N-Kóreumönnum. Niðurstaðan er sú að heilbrigðiskerfið sé í rúst.

Heilbrigðiskerfi landsins hefur farið hnignandi undanfarin ár, þótt yfirvöld í landinu segist veita öllum borgurum sínum ókeypis heilbrigðisþjónustu.

Í viðtali við 24 ára mann er því lýst hvernig fimm manns hafi haldið honum niðri á meðan verið var að fjarlægja fót hans fyrir neðan hné.

Í skýrslunni segir einnig að sjúklingar þurfi að borga læknum í peningum, sígarettum eða áfengi til þess að fá aðhlynningu. Þeir sem ekki eigi peninga fari því ekki á sjúkrahús. Læknar starfa oft launalaust og hafa lítinn aðgang að lyfjum. Þá þurfa þeir oft að margnýta einnota vörur.

- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×