Erlent

Serbía samþykkir aldrei sjálfstæði Kosovos

Óli Tynes skrifar
Íbúar í Kosovo fagna sjálfstæðisyfirlýsingu árið 2008.
Íbúar í Kosovo fagna sjálfstæðisyfirlýsingu árið 2008.

Serbneska þingið hefur samþykkt þingsályktunartillögu um að viðurkenna aldrei sjálfstæði Kosovos.

Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur þegar úrskurðað að sjálfstæðisyfirlýsing Kosovos árið 2008 sé fullkomlega lögleg.

Það var mikið áfall fyrir Serbíu. Þingmenn landsins voru þó ekki á því að beygja sig og samþykktu þingsályktunina með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.

Serbía tapaði stjórn sinni á Kosovo í stríðinu 1998-99 þegar Bandaríkin skárust í leikinn og NATO gerði loftárásir á Serbíu til þess að knýja Slobodan Milosevic til að láta af stríðsrekstri sínum.

Stjórnvöld í Belgrad segjast munu leita eftir umræðum um Kosovo á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í haust og reyna að koma í veg fyrir að þjóðir viðurkenni sjálfstæði þessa fyrrverandi héraðs.

Í ályktun sinni hvatti þingið til friðsamlegra samninga um varanlega lausn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×