Erlent

Lést úr hita í gufubaðskeppni

Ladyzhenski og Kaukonen Eins og sjá má á svipbrigðum keppendanna er gufubaðssetukeppni ekki auðveld. Myndin er tekin stuttu áður en Ladyzhenski hneig niður.
Ladyzhenski og Kaukonen Eins og sjá má á svipbrigðum keppendanna er gufubaðssetukeppni ekki auðveld. Myndin er tekin stuttu áður en Ladyzhenski hneig niður.
Úrslitaviðureign heimsmeistarakeppninnar í gufubaðssetu í Finnlandi endaði með ósköpum þegar annar keppendanna, Rússinn Vladimir Ladyzhensky, hneig niður. Ladyzhensky var fluttur á sjúkrahús án tafar en lést þar.

Ladyzhensky og keppinautur hans, Finninn Timo Kaukonen, höfðu þraukað í um 110 gráðu heitri gufu í sex mínútur áður en Ladyzhensky hneig niður.

„Öllum reglum var fylgt og fjöldi sjúkraliða var á staðnum. Auk þess þurftu allir keppendur að skila inn læknisvottorði,“ segir Ossi Arvela, einn skipuleggjenda keppninnar. „Ég veit að fólk utan Finnlands á erfitt með að skilja þetta en það er alls ekkert óvenjulegt fyrir okkur að vera í 110 gráðu gufubaði. Margir keppendur höfðu þegar setið í mun meiri hita en það,“ segir Arvela.

Reglur keppninnar voru þær að tvisvar á mínútu skyldi hálfum lítra af vatni hellt á ofn inni í gufubaði. Sá síðasti til að yfirgefa gufubaðið stæði svo uppi sem sigurvegari.

Keppnin hefur verið haldin árlega síðan árið 1999 en í þetta skiptið voru þátttakendur 130 frá fimmtán löndum. Skipuleggjendur hennar segja ólíklegt að keppnin verði endurtekin eftir slysið. - mþl



Fleiri fréttir

Sjá meira


×