Innlent

Landgræðslunni óheimilt að eyða lúpínu í Þórsmörk

Mynd/Valgarður Gíslason
Skógræktin neitaði Landgræðslunni um heimild til að eyða lúpínu í Þórsmörk í ár. Landgræðslan segist hafa fengið neitun þrátt fyrir skýra stefnu umhverfisráðuneytsins um að lúpínu skuli eyða þar sem hún sé talin óæskileg. Sviðsstjóri hjá Skógræktinni segir að lúpína í Þórsmörk, sé ekki meðal svæða sem nefnd séu í stefnumörkun ráðuneytisins.

Við greindum frá því fyrir helgi að Skógræktin teldi lúpínueyðingu með plöntueitrinu Roundup, hefði algjörlega misheppnast í Þórsmörk, árin 2007 til 2009. Allur gróður sem fyrir eitrinu varð, hefði drepist, en lúpínan svo aftur skotið upp kollinum.

Landgræðslan fullyrðir í tilkynningu að tilraunir með þessa aðferð til að eyða lúpínu hafi heppnast vel í Gunnarsholti. Þar hafi lúpína horfið og fjölbreyttur gróður komið í staðinn. Reyndar hafi stöku lúpína skotið sér upp.

Umhverfisráðuneytið hefur markað stefnu um að fjarlægja lúpínu af stöðum þar sem hún er ekki talin æskileg, þar á meðal Þórsmerkursvæðinu, segir á vef Landgræðslunnar. Verði ekkert að gert þá muni hún breiðast út yfir afar stór svæði í Þórsmörkinni. Verði ekkert að gert verði lúpína alls ráðandi á hluta af Rananum og jökulaurunum framan við Húsadal og berast síðan niður alla Markarfljótsaura. Landgræðslan telji því brýnt að koma í veg fyrir þetta.

Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri hjá Skógræktinni, er á öðru máli. „Lúpínan í Þórsmörk gerir miklu meiri gagn heldur en skaða. Hún skaðar ekki landslagið þarna og hún er ekki að fara inn í gamalgróna birkiskóga. Þvert á móti er lúpínan að hjálpa ungu birki til að komast á legg og klæða landið hraðar en ella. Hitt er að samkvæmt skýrslu, sem skrifuð var af Náttúrufræðistofnun og Landgræðslunni í vetur og skilað til umhverfisráðherra, var forgangslisti yfir þau svæði þar sem eyða á lúpínu og Þórsmörk er ekki á þessum lista. Þess vegna skiljum við ekki hvers vegna Landgræðslan er að leggja áherslu á að eyða lúpínu í Þórmörk.

Þröstur segir eigi að eyða lúpínu þurfi að skoða hvert tilvik fyrir sig áður en farið er í dýrar aðgerðir. „En ekki taka almennar ákvarðanir sem ná yfir alla línuna. Lúpínan er eins og aðrir hlutir. Það eru bæði jákvæðar og neikvæðar á henni og það þarf að meta það í hverju tilviki fyrir sig."


Tengdar fréttir

Tilraun til að eyða lúpínu mistókst

Tilraun til að eyða lúpínu í Þórsmörk, með illgresiseitrinu Roundup, á árinum 2007-9 mistókst, segir skógrækt ríkisins. Greint er frá því á heimasíðu skógræktarinnar að eitrunin hafi eytt öllum öðrum gróðri en lúpínan hafi




Fleiri fréttir

Sjá meira


×