Viðskipti innlent

Eigendum fasteigna fækkar í fyrsta sinn í sögunni

Eigendum fasteigna fækkaði milli ára um 0,7% en það hefur ekki gerst áður í sögunni. Þetta kemur fram í upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu um álagningu opinberra gjalda í ár.

Í fyrra áttu tæplega 97.200 fjölskyldur fasteignir á landinu en í ár eru þær rúmlega 96.500 talsins og hefur því fækkað um 672 milli ára.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir upplýsingafulltrúi fjármálaráðuneytisins segir að tvær meginskýringar séu á þessari fækkun. Annarsvegar hefur gjaldþrotum fjölgað mikið á landinu eftir hrunið 2008 og hinsvegar hefur töluverður fjöldi fólks flutt frá landinu, bæði Íslendingar og erlent fólk.

Framtaldar eignir heimilanna námu 3.804 milljörðum króna í lok síðasta árs og höfðu þær aukist um 4,0% frá fyrra ári. Fasteignir töldust 2.492 milljarðar að verðmæti eða 65,5% af eignum og verðmæti þeirra hafði aukist um 2,3% milli ára.

Framtaldar skuldir heimilanna námu alls 1.892 milljörðum króna í árslok 2009 og höfðu þær vaxið um 12,4% frá fyrra ári. Framtaldar skuldir vegna íbúðar­kaupa jukust um 8,8%, og námu 1.151 milljarði króna. Skuldir vegna íbúðarkaupa námu 46,2 % af verðmæti framtalinna fasteigna á árinu 2009.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×