Erlent

Allt á kafi í Kína

Íbúar í Kína og Suður-Kóreu glíma nú við eina mestu snjókomu sem fallið hefur í rúma hálfa öld. Skólum hefur verið lokað í kínversku höfuðborginni Beijing og flugumferð hefur farið úr skorðum þar í borg og í Seúl höfuðborg Suður-Kóreu. Um 30 sentimetra jafnfallinn snjór þekur nú mestan hluta Beijing borgar og hefur ekki snjóað svo mikið þar frá árinu 1951.

Stjórnvöld hafa skipað landsmönnum að fara út að moka snjóinn og í Kína hafa um 300 þúsund manns fengið slík boð. Skólahaldi var frestað í 3500 skólum í dag og því fengu um 2,2 milljónir auka frídag í dag. Óttast er að veðrið verði til þess að matvara muni hækka í verði og óttast er að verði ekki lát á vetrarveðrinu fari að bera á orkuskorti.

Veðurfræðingar sjá reyndar ekkert lát á og búist er við kólnandi veðri sem myndi reyndar þýða að lát verði á snjókomunni. Hinsvegar gæti frostið farið í allt að 32 gráður á celsíus í norðanverðu landinu en í Beijing er spáð um tíu gráðu frosti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×