Viðskipti innlent

Telur að ESA mótmæli ekki eignarhaldi Húsasmiðjunnar

Steinþór Baldursson, framkvæmdastjóri eignarhaldsfélagsins Vestia, væntir þess að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, muni ekki gera athugasemd við eignarhald Landsbankans á Húsasmiðjunni. Hann fagnar því að fá álit ESA á því flókna verkefni sem fjárhagsleg endurskipulagning íslenskra fyrirtækja er í því erfiða árferði sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi. Þetta kemur fram í tölvupósti til Vísir.is.

Múrbúðin hefur sent kvörtun til ESA vegna yfirtöku Landsbankans á Húsasmiðjunni. Vestia heldur utanum hlut Landsbankans í Húsasmiðjunni.

Múrbúðin telur að yfirtaka og eignarhald Landsbankans á Húsasmiðjunni feli í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu í skilningi 54. greinar EES samningsins. Ennfremur telur Múrbúðin að eignarhaldið feli í sér ólögmætan ríkisstyrk í skilningi 61. greinar EES samningsins.

„Það er mat þeirra sérfræðinga sem ég hef rætt við að aðkoma Vestia að Húsasmiðjunni stangist á engan hátt á við samkeppnisreglur hins evrópska efnahagssvæðis né reglur þess um ríkisaðstoð. Ég vænti þess því fastlega að ESA mun ekki gera athugasemd við aðkomu bankans að hinni fjárhagslegu endurskipulagningu Húsasmiðjunnar og eignarhaldi Vestia á fyrirtækinu," segir Steinþór í tölvupósti til Vísir.is.

Hann bendir á að aðkoma Vestia að Húsasmiðjunni hefur þegar komið til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu sem ekki lagðist gegn eignarhaldi Vestia á fyrirtækinu heldur setti því einungis skilyrði. „Þeim skilyrðum var gagngert ætlað að draga úr áhrifum eignarhaldins á samkeppnisaðila Húsasmiðjunnar og býst ég því við að þau skilyrði séu fullnægjandi til að tryggja þá hagsmuni sem kvörtun Múrbúðarinnar lítur að," segir Steinþor.

„Við erum í því hlutverki að vinna úr erfiðum verkefnum vegna afleiðinga hrunsins og hefur félagið við þá vinnu að leiðarljósi leiðbeinandi tilmæli Samkeppniseftirlitsins um þessi efni. Einnig hefur Vestia við þessa vinnu sett sér markmið m.a. um að lágmarka eignarhaldstíma á atvinnufyrirtækjum og er unnið hörðum höndum að því markmiði. Dæmi um slíkt er nýleg sala á Tal og söluferli á Parlogis er yfirstandandi. Það er von okkar að geta hafið söluferli fleirri eignarhluta á næstunni," segir hann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×