Erlent

Netanyahu vill koma á óvart

Netanyahu segir að erfitt verði að ná samkomulagi en þó mögulegt.
Netanyahu segir að erfitt verði að ná samkomulagi en þó mögulegt.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hefur gefið í skyn að friðarviðræður Ísraela og Palestínumanna, sem hefjast aftur í næstu viku, geti skilað árangri. Það er þó með þeim fyrirvara að Palestínumenn gangi að kröfum Ísraela.

Netanyahu segir að erfitt verði að ná samkomulagi en þó mögulegt. „Við viljum koma gagnrýnendum og efasemdarmönnum á óvart. En til þess að svo megi verða verðum við að finna fyrir samstöðu í hópi Palestínumanna,“ sagði Netanyahu á sunnudag. „Ef við finnum slíka samstöðu eigum við möguleika á að ná sögulegu samkomulagi.“

Netanyahu sagði að kæmi til þess að Palestínumenn stofnuðu eigin ríki mætti það ekki hafa neinn her, yrði að viðurkenna Ísrael sem ríki gyðinga sem og að gangast við öðrum „öryggiskröfum“ Ísraela.

Netanyahu minntist þó ekki á nokkur af aðaldeiluefnunum eins og landamæri, hvaða hlutverki Jerúsalem myndi gegna eða hvað yrði um palestínska fanga.

Friðarviðræður Palestínumanna og Ísraela hófust í Ósló fyrir sau-tján árum en hafa ekki enn skilað árangri. Viðræðurnar hefjast aftur í næstu viku en Netanyahu og Mahmud Abbas, forseti Palestínu, hafa samþykkt að hittast í Washington í Bandaríkjunum í byrjun næsta mánaðar.-ve



Fleiri fréttir

Sjá meira


×