Viðskipti innlent

Innflutningstölur sýna að botninum er náð í kreppunni

Innflutningur jókst á fyrri hluta þessa árs samanborið við sama tímabil í fyrra. Aukningin í magni mæld var lítil eða 0,8% en um er að ræða viðsnúning engu að síður frá því sem hefur verið í undangenginni kreppu.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að á sama tímabili í fyrra var þannig 43% samdráttur í innflutningi. Ekki hefur mælst aukning í innflutningi á fyrri hluta árs í magni talið frá árinu 2006. Er þetta vísbending um að hagkerfið hafi fundið botninn og sé nú tekið að vaxa á ný á ýmsum sviðum eftir undangengna gjaldeyris- og bankakreppu. Það var Hagstofan sem birti tölur um þetta á föstudaginn.

Tæplega 4% vöxtur var í innflutningi neysluvara á fyrri hluta þessa árs. Fyrir ári var 49% samdráttur í sömu stærð. Viðsnúningurinn þar er því verulegur á milli ára og til merkis um að neyslan sé nú farin að vaxa á ný eftir verulegan samdrátt í kreppunni.

Innflutningur á flestum sviðum hefur tekið við sér s.s. innflutningur á fatnaði og heimilistækjum. Lítilsháttar samdráttur mælist enn í innflutningi á bifreiðum en á móti hefur innflutningur á varahlutum í ökutæki aukist til muna eða um 10% á milli ára en bifreiðaflotin hefur elst nokkuð í kreppunni. Fluttar voru inn neysluvörur fyrir 51,8 ma.kr. á fyrri hluta þessa árs samanborið við 48,7 ma.kr. á sama tímabili í fyrra.

Áhugavert er að innflutningur á fjárfestingarvörum fer nú vaxandi. Í magni er aukningin 15% á milli fyrri hluta þessa árs og sama tímabils í fyrra. Verulegur samdráttur var í þessum innflutningi í kreppunni og var samdrátturinn fyrir ári 69%. Hér er því um umtalsverðan viðsnúning að ræða. Fluttar voru inn fjárfestingarvörur á fyrri hluta þessa árs fyrir tæplega 39 ma.kr. en innflutningurinn var ríflega 31 ma.kr. á sama tíma í fyrra.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×