Erlent

Neyðarkall vegna Níger og nágrannaríkja

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hjálparstofnanir kalla eftir aukinni aðstoð vegna hungursneyðarinnar á Sahelsvæðinu.
Hjálparstofnanir kalla eftir aukinni aðstoð vegna hungursneyðarinnar á Sahelsvæðinu.
Barnaheill - Save the Children ásamt níu öðrum hjálparstofnunum kalla eftir því að aukinn kraftur verði settur í mannúðarstarf svo hjálpa megi þeim 10 milljónum manna sem nú standa frammi fyrir bráðri hungursneyð á Sahelsvæðinu í Vestur og Mið-Afríku. Í fréttatilkynningu frá Barnaheillum segir að ástandið sé verst í Niger þar sem nokkrar milljónir manna, nær helmingur landsmanna, hafi ekki til hnífs né skeiðar. Í Chad eru tvær milljónir manna í sömu stöðu og hundruð þúsundir annarra þjást í Malí, Márítaníu, á nokkrum svæðum í Burkina Faso og í nyrsta hluta Nígeríu vegna ástandsins.

Hjálparstofnanirnar benda á að nýjar tölur um vannæringu á svæðinu ýti undir þörfina á að bregðast við strax. Í Níger þjást 17% barna undir fimm ára aldri af bráðri vannæringu, sem er ríflega þriðjungi fleiri börn en á sama tíma í fyrra. Til að tryggja megi að árangursrík og knýjandi hjálp berist, verði að vera skýr pólítískur vilji til athafna, ekki síst þegar komi að fjármögnun. Hjálparstofnanirnar hvetja Sameinuðu þjóðirnar sérstaklega til að skipa sérstakan fulltrúa fyrir þetta hættuástand svo flýta megi fyrir umfangsmiklu hjálparstarfi fjölmargra þjóða sem og til að semja við yfirvöld landa, bæði á þeim svæðum sem snert eru af ástandinu og þeirra sem láta fjármagn af hendi renna.

Hjálparstofnanirnar segja að þrátt fyrir aðvaranir síðustu sex mánaða, hafi fjármögnun hjálparstarfs verið lítil og hæg. Enn skorti 107 milljónir Bandaríkjadala til að mæta kalli Sameinuðu þjóðanna fyrir Níger. Sumar þjóðir hafa aukið framlag sitt en aðrar hafa verið hægari og síður örlátar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×