Viðskipti innlent

Ferðamannastraumurinn styrkir gengi krónunnar

Gengi krónunnar styrktist um 0,3% á föstudaginn síðastliðinn og er það í framhaldi af allnokkurri styrkingu hennar á skömmum tíma. Hefur gengi krónunnar nú hækkað um 2,4% á síðustu tveim vikum. Tengist hækkunin m.a. auknu gjaldeyrisinnflæði af ferðamannaþjónustu en það flæði er í árstíðarbundnu hámarki um þessar mundir.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að einnig hafi dollarinn verið að veikjast allhratt undanfarið gagnvart evrunni og fleiri myntum.

Millibankamarkaður með gjaldeyri hér á landi ákvarðar evru-krónu krossinn og þegar viðskipti þar eru strjál líkt og verið hefur undanfarið fylgir krónan evrunni. Þannig hefur krónan styrkst allverulega gagnvart dollaranum undanfarið. Kostar dollarinn nú 116,8 krónur samanborið við 122,4 krónur fyrir um tveimur vikum síðan.

Frá upphafi árs hefur krónan styrkst um 11,2% gagnvart vegnu meðaltali mynta helstu viðskiptalandanna. Evran kostaði 179,9 krónur í uppahafi árs en stendur nú í 155,1 krónu. Krónan hefur því hækkað um tæplega 16,0% gagnvart evrunni það sem af er ári. Dollarinn kostaði hins vegar 124,9 krónur í upphafi árs og hefur krónan því hækkað um 6,9% gagnvart honum á tímabilinu.

Hækkun krónunnar frá áramótum má rekja til gjaldeyrishaftanna sem hafa haldið nokkuð vel. Höftin hafa verið afar takmarkandi fyrir gjaldeyrisviðskipti og veltan á millibankamarkaðinum með gjaldeyri hafa verið afar lítil í samanburði við það sem áður var. Einnig hefur áhættuálag á íslenskar fjárskuldbindingar lækkað nokkuð frá áramótum og á sama tíma og það hefur verið að hækka í mörgum öðrum löndum. Tengist það eflaust að einhverju marki þeim áföngum sem hefur verið náð hér á landi í efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×