Erlent

Námumennirnir geta nú talað við ástvini sína

Chílesku námumennirnir sem lokuðust í námagöngum á 700 metra dýpi á dögunum geta nú talað við fjölskyldur sínar í gegnum síma. Námumennirnir þrjátíu og þrír, sem sennilega verða lokaðir í prísund sinni fram að jólum, hafa nú fengið símalínu lagða til sín í gegnum göng og hefur símaklefa verið komið upp á yfirborðinu þar sem fjölskyldur þeirra bíða nú í röðum eftir að heyra í ástvinum sínum.

Hver fjölskyldumeðlimur fær eina mínútu í símaklefanum og hafa sálfræðingar ráðlagt þeim að hafa símtölin öll á jákvæðu nótunum. Þessar gleðifréttir koma eftir að námamálaráðherra landsins hafði dregið úr vonum manna um að hægt væri að bjarga mönnunum fyrr en áætlað var. Sérfræðingar höfðu stungið upp á annarri björgunaraðferð og átti hún að taka um helmingi styttri tíma en sú sem nú er unnið eftir. Yfirvöld ætla þó að fara eftir hinni upprunalegu áætlun, sem felst í því að bora göng, um 66 sentimetra í þvermál niður til mannanna.

Allt er gert til þess að gera mönnunum vistina í prísund sinni sem þægilegasta og hafa þeir nú fengið send föt til skiptanna og tónlistarspilara. Þá eru sérfræðingar frá bandarísku geimferðarstofnunninni á staðnum en þeir hafa sérþekkingu á að aðlaga menn að því að lifa við mikil þrengsli í langan tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×