Erlent

Clegg sagði Brown að hann yrði að fara

Óli Tynes skrifar
Clegg, Cameron og Brown. Þeir síðarnefndu börðust um hylli hins fyrstnefnda.
Clegg, Cameron og Brown. Þeir síðarnefndu börðust um hylli hins fyrstnefnda. Mynd/AP

Þessu er haldið fram í nýrri bók sem Peter Mandelson fyrrverandi viðskiptaráðherra hefur skrifað. Útdráttur úr bókinni hefur verið birtur í The Times.

Eftir kosningarnar í Bretlandi áttu Frjálslyndir demókratar um tíma í samningaviðræðum við bæði Íhaldsflokkinn og Verkamannaflokkinn.

Þær umræður voru að einhverju leyti mjög leynilegar. Svo leynilegar að menn notuðu leynigöng sem liggja frá varnarmálaráðuneytinu til Downing strætis til þess að fara til fundanna.

Mandelson segir að Brown hafi gert sér vonir um að halda embætti sínu í samsteypustjórn með Frjálslyndum en að Clegg hafi gert þær vonir að engu.

Hann hafi sagt við forsætisráðherrann; „Leyfðu mér að fullvissa þig um að ég ber þér alls ekki illan hug. En það er ekki mögulegt að mynda trausta og túverðuga samsteypustjórn nema þú stígir virðulega til hliðar"

Það var þó ekki fyrr en daginn eftir, eftir að hafa heyrt það sama frá öðrum leiðtogum Frjálslyndra sem Brown ákvað að segja af sér.

Mandelson segir að Tony Blair hafi einnig komið við þessa sögu. Hann hafi sagt hreint út við Brown að breskur almenningur myndi aldrei sætta sig við að hann sæti áfram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×