Erlent

Reykmengun í Moskvu er komin langt yfir hættumörk

Ekkert lát er á skógar- og akureldunum í miðhluta Rússlands. Yfir 500 eldar brenna nú á svæði sem er 190.000 hektarar að stærð og virðast rússnesk yfirvöld ekki ráða neitt við þá.

Moskvubúar þjást gríðarlega því reykmökkur hefur legið yfir borginni undanfarna daga. Mælingar sýna að eiturefni í loftinu í borginni eru orðin sexfalt yfir hættumörkunum. Þá hefur áætlunarflugi til borgarinnar að hluta til verið beint annað sökum reyksins.

Samkvæmt opinberum tölum hafa 52 farist í eldunum en menn telja að sú tala sé mjög varlega áætluð. Aðrar þjóðir, þar á meðal Frakkar, hafa boðið Rússum að senda björgunarlið og útbúnað til landsins til að aðstoða við að ná tökum á eldunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×