Viðskipti innlent

Ábyrgðin færist yfir til ríkisstjórnarinnar

Hannes G. Sigurðsson, forstöðumaður hagdeildar Samtaka atvinnulífsins, segir að samtökin telji að Seðlabankinn hafi ráðist allt of hægt í stýrivaxtalækkanir.
Hannes G. Sigurðsson, forstöðumaður hagdeildar Samtaka atvinnulífsins, segir að samtökin telji að Seðlabankinn hafi ráðist allt of hægt í stýrivaxtalækkanir.
Svigrúm Seðlabankans til að keyra niður raunvexti fer minnkandi með lækkandi verðbólgu. Hagdeild Samtaka atvinnulífsins telur að ábyrgðin á því að blása lífi í hagkerfið sé að færast frá Seðlabankanum og yfir á stjórnvöld.

Vaxtastefna Seðlabankans hefur eftir hrun miðað að því að styðja við gengi krónunnar frekar en að örva hagkerfið eins og víða annarstaðar. Verðbólgan hér á landi mælist nú aðeins 2,6 prósent, sem merkir að svigrúm Seðlabankans til að keyra niður raunvexti í framtíðinni og auka þannig fjárfestingu fer minnkandi.

Hannes G. Sigurðsson, forstöðumaður hagdeildar Samtaka atvinnulífsins, segir að samtökin telji að Seðlabankinn hafi ráðist allt of hægt í stýrivaxtalækkanir.

„Það hefur ítrekað komið fram í könnunum meðal stjórnenda að þeir telja að of hátt vaxtastig hafi komið í veg fyrir fjárfestingar undanfarin misseri. Nú um stundir þá er myndin flóknari og menn telja að ástæðan fyrir þessum litlu fjárfestingaráformum sé pólitísk óvissa," segir Hannes.

Hann telur að fyrirtæki horfi að miklu leyti á nafnvexti, og þegar þeir séu komnir til jafns á við önnur lönd taki fjárfestingar hugsanlega við sér. Hannes segir að Seðlabankinn geti ekki haft mikil áhrif á fjárfestingu eftir að svigrúmið til vaxtalækkana hefur verið tæmt.

„Ég held að það sé mikilvægast að stjórnvöld marki sóknarstefnu í atvinnumálum, eyði óvissu í kringum sjávarútveginn og stuðli að þeim verkefnum sem eru á borðinu og þá komast þeir upp úr þessari kreppu," segir Hannes. Ábyrgðin fyrir því að blása lífi í efnahagskerfið sé að færast frá Seðlabankanum og yfir til ríkisstjórnarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×