Viðskipti innlent

Fékk mörghundruð milljóna kúlulán - fasteignir yfirveðsettar

Jón Ásgeir Jóhannesson fékk tvö tíu ára kúlulán frá óþekktum aðila í síðasta mánuði, samtals upp á 440 milljónir króna. Lánin eru með veði í tveimur fasteignum í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs. Fasteignirnar eru nú yfirveðsettar.

Fréttastofa hefur undir höndum gögn sem staðfesta þetta. Um er að ræða tvö veðskuldabréf, sem var þinglýst hjá sýslumanninum í Reykjavík þann 7. apríl síðastliðinn.

Skuldabréfin eru óverðtryggð, með meðalvöxtum. Annað lánið er að upphæð 270 milljónir króna, tryggt með 2. veðrétti í stórri fasteign í miðbæ Reykjavíkur. Hitt skuldabréfið er að upphæð 170 milljónir króna, tryggt með 2. veðrétti í annarri veglegri fasteign við sömu götu. Umræddar fasteignir eru í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

Jón Ásgeir er skráður skuldari og skrifar undir skuldabréfin sem slíkur. Bæði lánin eru kúlulán, með einni afborgun höfuðstóls og vaxta þann 31. desember 2020. Kröfuhafi, það er að segja lánveitandi, er handhafi, og því liggur ekki fyrir hver hann er. Með þessum nýju veðsetningum eru báðar eignirnir nú veðsettar langt umfram fasteignamat.

Jón Ásgeir og Ingibjörg vildu ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×