Viðskipti innlent

Fjárfestar telja töluverðar líkur á greiðslufalli innan árs

Skuldatryggingaálag ríkissjóðs til eins árs stendur nú í 910 punktum og telja fjárfestar því töluverðar líkur á að til greiðslufalls ríkissjóðs kunni að koma innan árs.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um málið. Þar segir að skuldatryggingarálag ríkissjóðs til fimm ára hefur hækkað um 260 punkta það sem af er ári og er nú álíka hátt og um mitt síðasta ár (673 punktar). Hækkun álagsins endurspeglar væntanlega meðal annars vaxandi áhyggjur af því að ríkissjóður kunni að lenda í greiðslufalli á næstu árum.

"Í því sambandi er athyglisvert að þótt álagið til 5 ára, sem oftast er notað til samanburðar, sé þannig svipað og í júlí í fyrra er skuldatryggingarálag á ríkissjóð til eins árs 910 punktar eða mun hærra en þá var, og meira í líkingu við stöðuna fyrir ári síðan. Fjárfestar telja þannig töluverðar líkur á að til greiðslufalls kunni að koma innan árs," segir í Morgunkorninu.

Ef litið er yfir erlendar skuldbindingar ríkissjóðs má þó segja að erfitt sé að rökstyðja slíka bölsýni hvað varðar næstu 12 mánuði. Samkvæmt Markaðsupplýsingum Lánamála ríkisins námu erlendar skuldir ríkissjóðs alls jafnvirði 357 milljörðum kr. um síðustu áramót. Af þeim skuldum er ekkert á lokagjalddaga á þessu ári og þarf ríkissjóður því aðeins að standa skil á vaxtagjöldum, sem gróflega má áætla að séu upp undir 20 milljarða kr.

Árið 2011 eru lokagjalddagar á tveimur stórum erlendum skuldbindingum ríkissjóðs. Annars vegar er þar um að ræða sambankalán að fjárhæð 300 milljónir evra, sem greiða á í september og hins vegar skuldabréf að fjárhæð 1 milljarður evra sem fellur á gjalddaga í desember. Auk heldur þarf vitaskuld að greiða vexti af þessum og öðrum skuldbindingum.

Ef ekki fæst frekara lánsfé inn í gjaldeyrisforða Seðlabankans gæti hann því verið orðinn nokkuð smár eftir þessar greiðslur. Það er hins vegar tæpast fyrr en í apríl 2012, þegar skuldabréf að fjárhæð 250 milljónir evra er á gjalddaga, sem gjaldeyrisforðinn kynni að verða þurrausinn, jafnvel þótt ekki takist að afla neins frekari gjaldeyris inn í hann.

Auk ríkissjóðs sjálfs er Landsvirkjun eini lántakandinn með ríkisábyrgð sem ber umtalsverðar erlendar skuldir, eftir því sem næst verður komist. Fyrirtækið skuldaði tæplega 2,6 milljarða dollara eða 330 milljarða kr. í erlendum myntum um mitt síðasta ár, mest í evrum og dollurum.

Afborganir þeirra skulda dreifast hins vegar nokkuð jafnt á næstu árin, ef marka má árshlutareikning fyrirtækisins. Þannig er jafnvirði 282 milljónir dollara á gjalddaga á næsta ári og 201 milljón dollara falla á gjalddaga árið 2012, auk vaxtagreiðslna.

Landsvirkjun hefur aðgang að allt að 300 milljónum dollara úr gjaldeyrisforða Seðlabankans samkvæmt sérstökum viðbúnaðarsamningi sem gerður var í fyrrasumar. Sjóðstreymi fyrirtækisins hefur hins vegar að líkindum batnað töluvert frá fyrri hluta síðasta árs sakir þess hversu álverð hefur hækkað á erlendum mörkuðum, auk þess sem Landsvirkjunar kveðst vera vel í sveit sett hvað lausafé varðar miðað við nýlega frétt á vef fyrirtækisins, þar sem fram kemur að lausafé, veltilán og sjóðstreymi samanlagt eigi að duga fyrir öllum skuldbindingum fram til ársins 2012.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×