Innlent

Gagnrýndu agaleysi í ríkisfjármálum

Ásbjörn Óttarsson gagnrýndi ríkisstjórnina á þingfundi í dag. Það sama gerði Pétur Blöndal.
Ásbjörn Óttarsson gagnrýndi ríkisstjórnina á þingfundi í dag. Það sama gerði Pétur Blöndal. Mynd/GVA
Sjálfstæðismenn gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að veita aukalega 500 milljónum króna til atvinnusköpunar án þess að fyrir liggi samþykki Alþingis. Í stað aðhalds sýni ríkisstjórnin agaleysi í ríkisfjármálum.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, kynnti í síðustu viku þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hækka framlög til viðhaldsverkefna á opinberum byggingum um 500 milljónir króna - eða úr 2,7 milljörðum í 3,2. Talið er að verkefnin muni skapa um 200 ný ársverk.

Sjálfstæðismenn gagnrýndu þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar á Alþingi í morgun á þeim forsendum að ekki hafi verið fjallað um þessa aukafjárveitingu á Alþingi.

Ásbjörn Óttarsson, þingmaður sjálfstæðisflokks, sagði þetta skýrt dæmi um agaleysi ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. „Ég teldi eðlilegra að svona atriði kæmi fyrir þingið í heild sinni, sem er fjárveitingarvaldið, og gæfi þá leyfi fyrir því að fara í þetta verkefni. Burt sé frá hvert verkefnið er."

Undir þetta tók Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks. „Þetta er ekki bara brot á fjárlögum. Þetta er brot á stjórnarskrá."

Siv Friðleifsdóttir sagði að allir flokkar væru sekir í málinu.Mynd/GVA
Guðbjartur Hannesson, þingmaður samfylkingarinnar og formaður fjárlaganefndar, benti á að það væri engin nýlunda að áform væru kynnt með þessum hætti. „Mér finnst ekkert óeðlilegt þó að ríkisstjórnin komi fram með slík áform og leggi þau fram. Ég hef rætt það við fjármálaráðherra að það sé eðlilegt að þá fylgi sú setning að þetta sé háð því að málið fái afgreiðslu og samþykki Alþingis," sagði Guðbjartur.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sagði að allir flokkar væru sekir í málinu og ekki bara hægt að gagnrýna núverandi ríkisstjórn.

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur stundað þetta. Framsóknarflokkurinn hefur stundað þetta. Samfylkingin hefur stundað þetta og núna Vinstri grænir," sagði Siv.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×