Erlent

Skandinavar vilja ekki stjórna

Stærstur hluti Dana á vinnumarkaði segjast engan áhuga hafa á stöðuhækkunum og stjórnunarstöðum. fréttablaðið/pjetur
Stærstur hluti Dana á vinnumarkaði segjast engan áhuga hafa á stöðuhækkunum og stjórnunarstöðum. fréttablaðið/pjetur
Danir hafa miklu minni áhuga á því að verða stjórnendur en fólk í öðrum löndum, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar.

Alþjóðlega vinnumiðlunin Randstad lét gera rannsóknina og var hún gerð í 25 löndum. Hún leiddi í ljós að aðeins fjögur prósent danskra launþega sögðust stefna að því að fá stöðuhækkun, en 68 prósent sögðust ekki hafa neinn áhuga á því. Tölurnar voru aðeins hærri í Noregi og Svíþjóð, en í þessum þremur löndum hafði fólk langminnstan áhuga á stöðuhækkunum.

Fulltrúar Randstad í Danmörku hafa sagt líklegar útskýringar á þessu vera að Skandinavar séu yfirleitt með hærri laun og í öruggari vinnu en aðrar þjóðir. Þeir hafi því ekki sömu þörf fyrir stöðuhækkun og fólk í löndum þar sem eru lægri laun, meira atvinnuleysi og verra velferðarkerfi.

Samtök launþega í Danmörku hafa þó lýst yfir áhyggjum af þessu og sagt niðurstöðuna sýna að Danir séu hræddir við að taka áhættu. Engin framþróun verði í samfélaginu ef allir hugsi með þessum hætti og ætli bara að fylgja straumnum.

- þeb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×