Erlent

Erlendar skuldir Haítí verði afskrifaðar

Frá Haítí.
Frá Haítí. Mynd/AP
Mannréttindasamtökin Amnesty International leggja áherslu á nauðsyn þess að mannréttindi og vernd íbúa Haítí verði sett í öndvegi við neyðaraðstoð og enduruppbyggingu landsins eftir jarðskjálftann fyrr í mánuðinum. Þau vilja jafnframt að erlendar skuldir landsins verði afskrifaðar.

„Samtökin hvetja til þess að börn verði vernduð gegn misnotkun og mansali, réttindi þeirra sem hafa flosnað upp séu virt og konur og stúlkur fái vernd gegn kynbundnu ofbeldi. Samtökin leggja einnig áherslu á að endurreisn réttarkerfisins verði sett í forgang," segir í tilkynningu frá Íslandsdeild Amnesty International.

Þar segir ennfremur að nauðsynlegt sé að ábyrgðarhluti alþjóðlegs herliðs á svæðinu sé skilgreindur í samræmi við alþjóðlegar mannréttindareglur til að koma í veg fyrir mannréttindabrot.

Loks hvetur Amnesty International til þess að erlendar skuldir landsins verði afskrifaðar. Mikil hætta sé á að landið geti ekki uppfyllt mannréttindi íbúa, sérstaklega efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi þeirra, verði það krafið um endurgreiðslu allra erlendra skulda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×