Erlent

Stráksi verður enn að bíða

Óli Tynes skrifar
Hosni Mubarak, forseti Egyptalands.
Hosni Mubarak, forseti Egyptalands.

Hinn 82 ára gamli Hosni Mubarak ætlar sér að halda áfram í embætti forseta Egyptalands. Hann hefur gegnt því embætti í nær þrjátíu ár. Einn af æðstu talsmönnum Þjóðlega lýðræðisflokksins sagði í dag að frambjóðandi flokksins í kosningunum á næsta ári yrði Hosni Mubarak. Næsti forseti landsins verði því Hosni Mubarak.

Erfðaprinsinn má enn bíða

Vangaveltur hafa verið um að Mubarak myndi draga sig í hlé á næsta ári og Gamal sonur hans taka við embættinu. Gamal Mubarak er 46 ára. Hann er orðinn háttsettur í flokknum og almennt talið að pabbi hafi verið að búa hann undir að taka við af sér.

Svindlað í öllum kosningum

Kosningar í Egyptalandi hafa í gegnum tíðina einkennst af svindli og svínaríi. Stjórnvöld hafa aldrei viljað fallast á alþjóðlegt eftirlit, á þeim forsendum að það væri brot gegn fullveldi landsins. Þótt fjölmiðlar eigi að teljast frjálsir í Egyptalandi hafa stjórnvöld aldrei hikað við að banna miðla sem þau telja ekki nógu holla sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×