Erlent

Þvagprufa notuð til að greina krabbamein

Krabbamein í blöðruhálskirtli greinist oftast hjá rosknum karlmönnum, tveir af hverjum þremur sem greinast eru yfir 70 ára að aldri. fréttablaðið/stefán
Krabbamein í blöðruhálskirtli greinist oftast hjá rosknum karlmönnum, tveir af hverjum þremur sem greinast eru yfir 70 ára að aldri. fréttablaðið/stefán
Ný bresk rannsókn gefur fyrirheit um að með einföldu þvagprófi sé hægt að greina hverjir séu líklegir til að fá krabbamein í blöðruhálskirtli. BBC greindi frá þessu í gær.

Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar, sem leidd er af dr. Hayley Whitaker, prófessor í Cambridge-háskóla, sýna að mögulega sé hægt að greina svokallað MSMB-prótín í þvagi. Prótínið tengist erfðabreytileika tengdum krabbameini.

Hayley segir að sýni hafi verið tekin af 350 mönnum sem annaðhvort voru með krabbamein í blöðruhálskirtli eða ekki. Niðurstöðurnar hafi verið sláandi því greinileg tengsl hafi verið á milli magns MSMB-prótínsins og erfðafræðilegs breytileika sem tengist krabbameininu.

Frekari rannsókna er þörf en ef niðurstöður þeirra verða í takt við væntingar rannsakenda gætu þær leitt til þess að hægt verði að framleiða tiltölulega ódýrt þvagpróf, sem myndi kosta um þúsund krónur í Bretlandi.

Í dag er notast við svokallað PSA-blóðpróf til að greina krabbamein í blöðruhálskirtli en samkvæmt BBC er það próf ónákvæmt.

Laufey Tryggvadóttir, klínískur prófessor við Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár Íslands, segir of snemmt að segja nokkuð til um hvort þetta próf verði að veruleika.

„Það á eftir að prófa hversu vel þetta próf spáir fyrir um krabbameinsgreiningu með frekari rannsóknum,“ segir Laufey.

„Þær prófanir munu taka einhvern tíma. Ef niðurstöðurnar verða jákvæðar verður þetta hugsanlega nothæft. Í dag er mest þörf á prófum sem greina það hvort krabbamein í blöðruhálskirtli sé alvarlegt eða sofandi, hvort það leiði til dauða þess sem greindur er eða hvort það hafi engin slæm áhrif á viðkomandi. Óvíst er hvort þetta próf leysir þann vanda.

Kannski vita það ekki allir en ef krabbameinið er sofandi geta menn lifað með því alla ævi án þess að kenna sér nokkurs meins.“

trausti@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×