Viðskipti innlent

Clearstream með beina aðild að íslenska markaðinum

NASDAQ OMX Group tilkynnti í dag að Clearstream, dótturfyrirtæki Deutsche Börse Group, verði með beina aðild að íslenskum markaði frá og með deginum í dag.

Í tilkynningu segir að aðild Clearstream þýðir greiðari aðgang erlendra fjárfesta að skráðum hluta- og skuldabréfum hjá Verðbréfaskráningu Íslands. Jafnframt getur aðildin stuðlað að betri aðgengi innlendra útgefenda verðbréfa að fjármögnun.

Clearstream er eitt stærsta fyrirtæki í Evrópu á sviði frágangs og uppgjörs verðbréfaviðskipta. Með aðild sinni að Verðbréfaskráningu Íslands (NASDAQ OMX Icelandic Markets) og stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands getur fyrirtækið veitt þjónustu sína á íslenskum markaði milliliðalaust.

"Við fögnum aðild Clearstream að markaðnum. Þetta er framfaraskref og liður í því að endurvekja tiltrú og traust á íslensku efnahagslífi." segir Þórður Friðjónsson, forstjóri kauphallarinar. "Við teljum að þátttaka Clearstream sé til marks um aukinn áhuga erlendra fjárfesta á Íslandi og hún stuðli að bættum tengslum við alþjóðlegar fjármálastofnanir. Þá er ástæða að þakka Seðlabanka Íslands fyrir þátt þeirra í að koma á þessum samskiptum".








Fleiri fréttir

Sjá meira


×