Erlent

Barbie stungið í steininn í Mexíkó

Edgar „Barbie“ Valdez.
Edgar „Barbie“ Valdez.

Lögreglan í Mexíkó hefur handtekið háttsettann eiturlyfjasmyglara sem gengur undir nafninu Barbie.

Edgar Valdez, sem er bandarískur ríkisborgari, er einn af foringjum mexíkósku glæpasamtakanna Beltram Leyva og hefur hann staðið í blóðugu stríði við Hector Beltran Leyva um yfirráðin í samtökunum eftir að stofnandinn og bróðir Hectors, Arturo, var skotinn til bana af lögreglunni í desember í fyrra. Valdez, sem kallaður er Barbie vegna þess að hann er ljós yfirlitum og bláeygður, hefur verið eftirlýstur í Bandaríkjunum fyrir eiturlyfjasmygl og hafa þarlend yfirvöld sett tvær milljónir dollara til höfuðs honum.

Hann er grunaður um að hafa dreift þúsund kílóa af kókaíni á austurströnd Bandaríkjanna á árunum 2004 til 2006. Handtaka Barbie bendir til að yfirvöld séu loksins að ná einhverjum árangri í baráttunni við glæpaklíkurnar en Felipe Calderon núverandi forseti Mexíkó lýsti yfir stríði gegn þeim um leið og hann náði kjöri árið 2006.

Síðan þá hafa að minnsta kosti 25 þúsund manns látið lífið í átökunum. Í gær greindu yfirvöld frá því að tíundi hluti allra lögreglumanna í landinu, rúmlega þrjú þúsund manns, hefði verið rekinn vegna spillingarmála og tengsla við glæpaklíkurnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×