Erlent

Gosið í Eyjafjallajökli kemur sjávarlífi til góða

Vísindamenn eru nú að rannsaka hvort aska úr eldgosinu í Eyjafjallajökli muni koma sjávarlífinu í hafinu í kringum Ísland til góða.

Fjallað er um þetta mál á CNN en þar segir að eldgosið hafi gefið vísindamönnum einstakt tækifæri til að kanna áhrif öskufallsins á lífiríki sjávarins.

Hópur alþjóðlegra vísindamanna er nú staddur á rannsóknarskipi fyrir norðan Ísland en ferð þess var skipulögð fyrir nokkrum árum. Að gosið hafi í millitíðinni er talinn bónus fyrir þessar rannsóknir.

Ætlunin er að rannsaka áhrif öskufallsins á þörungalíf sjávarins en það er undirstaðan að lífkeðjunni í sjónum. Þörungarnir binda koltvísýring úr andrúmsloftinu og færa hann þannig niður í hafið. Járn er nauðsynlegt til þess að bindinging á koltvísýringnum gangi snuðrulaust fyrir sig.

Eftir að þörungablóminn að vori hefur sprungið út er yfirleitt svo lítið eftir af járni í sjónum að sumarblóminn á erfitt uppdráttar. Vísindamenn telja hinsvegar að svo mikið járn hafi komið í hafið með öskufallinnu að sumarblóminn í ár verði óvenju umfangsmikill. Slíkt kæmi allri lífkeðjunni til góða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×