Viðskipti innlent

Tæp 800 fyrirtæki gjaldþrota með 400 milljarða skuldir

Hafsteinn Hauksson skrifar

780 fyrirtæki með útistandandi skuldir upp á 400 milljarða króna urðu gjaldþrota á síðasta ári, en árangurslaus fjárnám hafa verið gerð í 1.500 fyrirtækjum til viðbótar.

Í gagnagrunni Seðlabanka íslands um skuldir fyrirtækja eru upplýsingar um 20 þúsund íslensk fyrirtæki. Samkvæmt nýjasta hefti Fjármálastöðugleika Seðlabankans voru um 780 þessara fyrirtækja orðin gjaldþrota í árslok 2009, en skuldir þeirra námu um 400 milljörðum króna, eða tæpum tíunda hluta eftirstöðva heildarskulda. Stærstur hluti eftirstöðvanna var hjá eignarhaldsfélögum.

20 fyrirtæki til viðbótar voru í greiðslustöðvun eða voru að leita eftir nauðasamningum þegar gögn voru tekin saman í febrúar, en skuldir þeirra námu tæpum 300 milljörðum. Hjá um 1.500 fyrirtækjum hefur farið fram árangurslaust fjárnám, en eftirstöðvar skulda þeirra nema nokkuð lægri fjárhæðum, eða um tveimur prósentum heildareftirstöðva lánasafnsins.

Ljóst er að staða fjölmargra fyrirtækja er því erfið. Í lok apríl síðastliðnum var helmingur útlána viðskiptabankanna þriggja til stærri fyrirtækja í vanskilum umfram 90 daga, en um 36 prósent smárra og meðalstórra fyrirtækjalána. Eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gær eru alls meira en 40 prósent af heildarútlánum stóru bankanna í vanskilum eða greiðsla þeirra þykir ólíkleg.

Vanskil á Íslandi eru með allra mesta móti miðað við aðrar kerfislægar kreppur. Sem dæmi má nefna að í bankakreppunni sem reið yfir Norðurlöndin í upphafi tíunda áratugsins voru vanskil mest á bilinu 10 til 15 prósent, en í kreppunni sem reið yfir suðaustur Asíu undir lok sama áratugs voru vanskil að jafnaði innan við 35 prósent.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×