Viðskipti innlent

Græn framtíð endurnýtir raftæki fyrir Grænlendinga

Græn framtíð ehf., sem sérhæfir sig í endurnýtingu á smáraftækjum, hefur ýtt úr vör endurnýtingaráætlun fyrir fjarskiptafélagið Tele Greenland.

Í tilkynningu segir að áætlunin gerir Tele Greenland mögulegt að endurnýta gamla, ónýta og gallaða farsíma frá viðskiptavinum auk önnur smáraftæki, svo sem fartölvur, MP3 spilara og stafrænar myndavélar. Hægt verður að taka á móti smáraftækjum til endurnýtingar í rúmlega 20 verslunum og þjónustustöðum Tele Greenland vítt og breitt um Grænland.

Markmiðið með endurnýtingaráætlun Grænnar framtíðar í Grænlandi er stuðla að endurnýtingu og endurvinnslu á smáraftækjum og efla umhverfisvitund. Þá vill Tele Greenland fylgja eftir WEEE tilskipun Evrópusambandsins (Waste Electrical and Electronic Equipment) um rétta meðhöndlun á rafeindaúrgangi.

Græn framtíð mun annast flutning á búnaðinum til vottaðra endurnýtingarfyrirtækja víða um heim. Þau tæki sem eru heil er hægt að laga og nota aftur. Íhlutir úr öðrum tækjum eru nýtt í önnur tæki. Einnig er í símunum spilliefni, svo sem blý og arsenik. Þessi efni valda engum skaða þegar farsíminn er í notkun en þau geta valdið skaða ef þau enda í náttúrunni.

„Græn framtíð hefur lagt áherslu á að bjóða endurnýtingaráætlun félagsins til helstu nágrannalanda okkar, eins og Grænlands og Færeyja. Lausnin felst í því að bjóða íslenskt umhverfishugvit; draga úr því magni rafeindabúnaðar sem endar á sorphaugum, efla umhverfisvitund almennings og umhverfisvæna starfshætti fyrirtækja," segir Bjartmar Alexandersson hjá Grænni framtíð.

„Samstarfið við Tele Greenland er mikilvægt skref í þá átt því nú geta Grænlendingar ávallt komið smáraftækjum sem eru ekki lengur í notkun í endurnýtingu til ábyrgra aðila," segir Bjartmar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×