Viðskipti innlent

Ný skýrsla AGS vegvísir fyrir breytta stefnu Seðlabankans

Ný skýrsla frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) um fyrirkomulag hagstjórnar kann að vísa veginn hvaða hætti peningamálastefna Seðlabanka Íslands verður endurbætt á næstu misserum. Í skýrslunni reifar aðalhagfræðingur AGS, Olivier Blanchard, ásamt fleiri háttsettum AGS-mönnum þá ágalla sem kreppa undanfarinna missera hafi leitt í ljós á hagstjórn, sér í lagi þeirri stefnu að styðjast við einfalt verðbólgumarkmið við stjórn peningamála.

Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar kemur fram að ein helsta niðurstaða Blanchard og félaga er að seðlabankar eigi að styðjast við mun stærra vopnabúr en stýrivexti. Þannig leggja þeir til að regluverki verði beitt í auknum mæli til að styðja við markmið peningastefnunnar, og má þar nefna reglur um eigið fé, bindiskyldu og lausafjárhlutföll.

Þá velta þeir upp þeirri spurningu hvort ekki sé heppilegt að styðjast við hærri miðgildi í verðbólgumarkmiðum seðlabanka en raunin hefur verið, til dæmis með því að hækka það úr 2% (sem er algengt markmið erlendis) í 4%. Má ráða af texta skýrslunnar að höfundar telji góðar líkur á því að þeir kostir sem fylgja auknu svigrúmi seðlabanka til að bregðast við áföllum vegi þyngra en gallarnir sem fylgja slíkri breytingu, en sem kunnugt er lækkuðu flestir stærstu seðlabanka heims vexti niður að 0% eftir að kreppan skall á. Höfðu þeir ekki frekara svigrúm til að lækka raunvexti.

Loks mæla AGS-menn með því að seðlabankar í litlum, opnum hagkerfum viðurkenni mikilvægi gengisstöðugleika fyrir hagstjórn og beiti inngripum á gjaldeyrismarkaði og stýringu gjaldeyrisforða með markvissum hætti.

Ofangreindar niðurstöður eru þvert á stefnu Seðlabanka Íslands lengst af undangengnum áratug. Þar á bæ hefur því löngum verið haldið fram að þar sem bankinn hefði eitt meginmarkmið, lága og stöðuga verðbólgu, ætti í stórum dráttum að beita einu stýritæki, stýrivöxtum bankans, til hagstjórnar. Öðrum tækjum á borð við bindiskyldu og inngrip á gjaldeyrismarkaði var löngum hafnað þrátt fyrir að beiting slíkra stjórntækja hafi gefist allvel víða erlendis við áþekkar aðstæður og hér ríktu.

Því skal þó haldið til haga að í áliti til forsætisráðherra í fyrrasumar lagði bankinn til að honum yrðu fengin í hendur fleiri tól af þessu tagi til þess að styðja við vaxtastefnu hans. Þá hafa sérfræðingar bankans jafnan tekið afar dræmt í hugmyndir um að hækka miðgildi verðbólgumarkmiðsins, nú síðast í framangreindu áliti.

Hin nýja skýrsla AGS er sérstaklega athyglisvert að til stendur að endurskoða peningastefnu Seðlabankans á næstunni. Í skýrslunni sem fylgdi fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunar sjóðsins og íslenskra stjórnvalda var það tekið fram að þegar lengra liði á áætlunina væri nauðsynlegt að huga að framtíðar peningastefnu Seðlabankans. Þar sem AGS mun vafalaust koma að því verki, a.m.k. í ráðgjafarhlutverki, má ætla að hugmyndir líkar þeim sem Blanchard og félagar viðruðu í skýrslu sinni muni verða veigamiklar í þeirri vinnu.

Í því sambandi má einnig nefna að núverandi Seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, hefur undanfarið í ræðu og riti reifað hugmyndir sem í mörgu eru áþekkar hugmyndum AGS-manna, sér í lagi hvað varðar hlutverk inngripa og beitingu regluverks, að því er segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×