Erlent

500 milljónir dala til Pakistans

Utanríkisráðherrann tilkynnti um aðstoðina við Pakistan á fundi með utanríkisráðherra landsins, Shah Mahmood Quershi. fréttablaðið/ap
Utanríkisráðherrann tilkynnti um aðstoðina við Pakistan á fundi með utanríkisráðherra landsins, Shah Mahmood Quershi. fréttablaðið/ap
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti í gær að ríkisstjórn landsins hyggist verja 500 milljónum Bandaríkjadala í uppbyggingarstarf í landinu á næstunni.

Peningarnir verða notaðir til þess að ljúka gerð tveggja virkjana sem munu framleiða rafmagn fyrir um 300 þúsund manns á svæðunum við landamæri Afganistans. Þá verða þrjár heilbrigðisstofnanir ýmist byggðar eða endurnýjaðar í mið- og suðurhluta landsins og aðgangur aukinn að hreinu drykkjarvatni.

Bandaríkjastjórn reynir með þessu að eyða tortryggni Pakistana gagnvart henni. Clinton sagði á fundi í Pakistan í gær að það myndi reynast erfitt að byggja upp traust milli landanna á nýjan leik en verið væri að reyna að hefja nýtt tímabil samvinnu. Þá sagði hún markmiðið að fullvissa almenning í landinu um að einlægur áhugi væri á því að hjálpa Pakistan, og samvinnan snerist um margt fleira en baráttu gegn hryðjuverkum.

Pakistan og Afganistan hafa stigið skref í áttina að bættum samskiptum með því að skrifa undir vöruskiptasamning á sunnudag. Bandaríkjastjórn hefur þrýst á löndin að bæta samskiptin og segist telja að samningurinn muni hafa jákvæð áhrif á bæði lönd. - þeb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×