Viðskipti innlent

Snörp lækkun á skuldatryggingaálagi ríkissjóðs

Snörp lækkun varð á skuldatryggingaálagi ríkissjóðs í dag. Samkvæmt mælingu CMA gagnaveitunnar lækkaði álagið um rúma 33 punkta eða tæp 6% og stendur núna í tæpum 534 punktum.

Þetta er mesta lækkunin á skuldatryggingaálagi þjóða í dag. Næst á eftir Íslandi kemur Austurríki þar sem álagið lækkaði um 4%, hjá Finnlandi lækkaði álagið um 3,5% og hjá Bandaríkjunum um 2,5%. Tekið skal fram að álag þessara þjóða, utan Íslands, er mælt í tveggja stafa tölum.

Í daglegu fréttabréfi CMA segir að lækkunin á skuldatryggingaálagi ríkissjóðs sé vegna útboðs á skuldabréfum. Ekki er gott að sjá hvað átt er við enda hafa engin útboð á skuldabréfum í erlendri mynt orðið á vegum ríkisins í langan tíma.

Jón Bjarki Bentsson sérfræðingur hjá greiningardeild Íslandsbanka segir að hugsanlega sé hér verið að vitna í hreyfingar á skuldabréfaflokki þeim sem koma á til greiðslu á næsta ári og nemur einum milljarði evra.

„Þessi bréf hafa ekki hreyfst lengi en ég sé núna í miðlunarkerfi Reuters að munurinn á kaup- og sölutilboðum hefur minnkað í vikunni og ávöxtunarkrafan hefur lækkað," segir Jón Bjarki. „Það hafa því einhver viðskipti átt sér stað með þessi bréf. Þar fyrir utan er að sjálfsögðu alltaf ánægjulegt þegar skuldatryggingaálagið minnkar."

Skuldatryggingaálag á ríkissjóð í 534 punktum samsvarar því að reiða þurfi fram rúmlega 5,3% af nafnverði skuldabréfs til að tryggja eigenda þess fyrir greiðslufalli næstu 5 árin.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×