Viðskipti innlent

Verðbólgan tekjulind hjá Landsbanka og Íslandsbanka

Verðbólgan skilaði tekjum hjá bæði Íslandsbanka og Landsbanka á síðasta ári þar sem verðtryggðar eignir þessara banka voru hærri en verðtryggðar skuldir. Arion banki tapaði aftur á móti verðbólgunni á síðasta ári þ.e. verðtryggðar skuldir voru hærri en verðtryggðar eignir.

Þetta kemur fram í umfjöllun greiningar Arion banka í Markaðspunktum sínum. Þar er fjallað um uppgjör Arion banka, Íslandsbanka og Landsbanka (NBI) fyrir árið 2009 sem voru nýlega birt en síðasta ár var einmitt fyrsta heila rekstrarár þessara nýju banka.

Íslandsbanki skilaði hvað bestri afkomu á árinu 2009 af bönkunum þremur ef aðeins er litið á lokatölurnar. Þannig var hagnaður Íslandsbanka um 24 milljarðar kr. og arðsemi eiginfjár 30%. Hins vegar er efnahagsreikningur Landsbankans sá stærsti af bönkunum og nema eignir um 1.000 milljörðum kr. og er útibúanet bankans sömuleiðis stærst þegar litið er til fjölda útibúa.

Í Markaðspunktum segir að nettó vaxtatekjur Íslandsbanka námu 32 milljörðum kr, Landsbankans um 28 milljörðum kr.og Arion Banka 12 milljörðum kr. Sé horft framhjá uppfærslu á eignum og skuldum í sundurliðun á nettó vaxtatekjum Landsbankans, lækka nettó vaxtatekjurnar um nærri helming, og væru þær því um 14,5 milljörðum kr í stað 28 milljarða kr. eins og kemur fram í rekstrarreikningnum.

Rekstrartekjur Arion banka eru hæstar af bönkunum sem kann að koma á óvart ef horft er til nettó vaxta- og þóknanatekna allra bankanna. Þetta á sér þó eðlilegar skýringar en í tilfelli Arion banka hefur bankinn yfirtekið nokkur fyrirtæki tímabundið sem teljast til dótturfyrirtækja í uppgjörinu (á ekki við um Haga og Íslenska Aðalverktaka). Það er ekki þar með sagt að afkoma þessara félaga hafi skilað bankanum miklu en tekjur dótturfyrirtækja voru um 17,8 milljarða kr. en rekstrarkostnaður þeirra var um 18 milljarðar kr. og því um 200 milljóna kr. tap að ræða.

Útlán voru um 98 milljörðum kr. hærri en innlán hjá Íslandsbanka (eða 15% af eignum bankans) og svipaða sögu má segja um Landsbankann þar sem útlánin voru 200 milljörðum kr. hærri (20% af eignum bankans). Hins vegar eru innlán um 210 milljörðum kr hærri en útlán hjá Arion banka, eða sem nemur um 30% af eignum.

Þess má einnig geta að Arion banki er stærsti innlánabanki landsins með um 600 milljarða kr. í innlánum þar af 495 milljarða kr í innlánum frá viðskiptavinum. Til samanburðar eru innlán frá viðskiptavinum hjá Landsbankanum 453 milljarðar kr. og hjá Íslandsbanka 340 milljarðar kr.

Ef litið er á innlán frá viðskiptavinum sem hlutfall af eignum, sést að Arion banki er að mestu fjármagnaður með innlánum eða um 65%. Þetta hlutfall er heldur lægra fyrir hina tvo bankana. Ef skuldir við fjármálafyrirtæki og Seðlabanka eru taldar til innlána ásamt innlánum viðskiptavina (heildarinnlán) er hlutfallið um 80% fyrir Arion banka.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×