Erlent

Hljómsveitin Abba ætlar í mál við Danska þjóðarflokkinn

Hin þekkta sænska hljómsveit Abba er æf af reiði út í Danska þjóðarflokkinn og formann hans Piu Kjærsgaard. Abba ætlar í mál við flokkinn fyrir að hafa umskrifað hið þekkta lag þeirra Mamma Mia.

Mikið er fjallað um þetta mál í sænskum og dönskum fjölmiðlum. Forsaga þess er að á landsfundi Danska þjóðarflokksins í vikunni ákvað ungliðahreyfing hans að hylla Piu Kjærsgaard formann flokksins þegar hún gekk í salinn með því að syngja lagið Mamma Mia en því höfðu þeir breytt yfir í Mamma Pia.

Þetta leiddi til þess að þeir Benny Andersson og Björn Ulvaeus sáu rautt en þeir eru höfundar lagsins. Nú hafa þeir félagar beðið Universal Records, útgáfufélag Abba, að fara í mál við Danska þjóðarflokkinn.

Benny segir að það gangi ekki að hver sem er taki lög þeirra og breyti að vild. Benny er þekktur stuðningsmaður femínista í Svíþjóð og styrkir samtök þeirra fjárhagslega. Hann dregur enga dul á að hann stendur langt frá Danska þjóðarflokknum pólitíkst séð en margir Svíar leggja að jöfnu Danska þjóðarflokkinn og öfgaflokkinn Svíþjóðardemókratana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×