Viðskipti innlent

Vinnslustöðin greiðir út arð í evrum

Starfsfólk Vinnslustöðvarinnar. Mynd úr safni.
Starfsfólk Vinnslustöðvarinnar. Mynd úr safni.

Aðalfundur Vinnslustöðvar­innar í Vestmannaeyjum samþykkti á aðalfundi að skrá hlutafé félagsins í evrum og að í kjölfarið yrði greiddur út 18% arður í evrum samkvæmt eyjafréttum.is.

Á heimasíðu Eyjafrétta segir að á árinu 2008 hafi félagið nýtt sér heimild í lögum til að breyta reikningsskilum sínum úr ís­lenskum krónum í evrur.

Stjórn og stjórnendur segja að reynslan sýni að sú ákvörðun hafi verið hárrétt, því að öðrum kosti hefði félagið hvorki haldið eigin fé sínu né getu til að greiða eigendum sínum arð.

Eigið fé Vinnslustöðvarinnar er tæplega 30 milljónir evra og eiginfjárhlutfallið tæp 33% samkvæmt nýsamþykktum reikningum 2009. Ef sömu reikningar félagsins hefðu verið gerðir upp í íslenskum krónum væri eigið fé hins vegar nei­kvætt um 872 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið væri nei­kvætt um 8,7%.

Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslu­stöðvarinnar, tók á aðalfundinum einfalt dæmi til að sýna fram á hve litla þýðingu það hefði að tala um skuldir ís­lenskra sjávarútvegsfyrirtækja í íslenskum krónum, sem ­reyndar væri sígilt og vinsælt umræðuefni álitsgjafa og skoðanahönnuða í fjölmiðlum.

Vinnslustöðin skuldar 61 milljón evra og hefur ekki ­skuldað minna í evrum frá því árið 2003 en í íslenskum krónum eru skuldir félagsins nú tvöfalt hærri en þær voru 2003. Tekjur félagsins í evrum á síðastliðnu ári voru hins vegar 20 milljónum evra meiri en árið 2003. Síðan spurði Sigurgeir B. fundarmenn:

„Nær allar tekjur félagsins eru í erlendum myntum og hvaða þýðingu hefur þá í raun að velta vöngum yfir því að skuldir þess í íslenskum krónum hafi tvöfaldast við hrun krónunnar árið 2008?"

Hægt er að nálgast frétt Eyjafrétta hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×