Viðskipti innlent

Ekkert álver framleiðir jafnmörg tonn í hverju keri

MYND/Heiða

Útflutningsverðmæti Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði jókst lítil­lega milli áranna 2008 og 2009 í íslenskum krónum.

Alcoa Fjarðaál framleiddi 349.505 tonn af áli á síðasta ári. Útflutningsverðmætið nam 74 milljörðum króna. 2009 var fyrsta heila árið sem álverið var í fullum rekstri. Gangsetningu lauk í apríl 2008. Þá var framleiðslan 322.650 tonn og verðmæti útflutningsins 73 milljarðar.

„Í dag er ekkert álver í heiminum sem daglega framleiðir jafn mörg tonn í hverju keri og Fjarðaál," segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóra Alcoa á Íslandi, í nýlegum pistli á heimasíðu fyrirtækisins. Þar kemur fram að fyrirtækið hafi skilað „afar ásættanlegri niðurstöðu fyrir árið 2009".

Ekki náðist tal af Tómasi Má en Erna Indriðadóttir upplýsingafulltrúi sagði að tap Alcoa-samstæðunnar hefði numið 143 milljörðum íslenskra króna á síðasta ári, miðað við gengi um 124 krónur fyrir hvern dollar. Ekki fengust upplýsingar um afkomu álversins í Reyðarfirði eins og sér.

Erna sagði að reglur um upplýsingagjöf fyrirtækja, sem skráð eru á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum, stæðu í vegi fyrir því að þær upplýsingar væru gefnar frá Íslandi.

Laun og launatengd gjöld sem Fjarðaál greiddi 450 starfsmönnum sínum námu samtals 3,6 milljörðum króna árið 2009 en 3,4 milljörðum árið 2008. - pg














Fleiri fréttir

Sjá meira


×