Viðskipti innlent

Færeyjabanki eignast hluta af útibúaneti Sparbank

Færeyjabanki hefur eignast hluta af útibúaneti danska bankans Sparbank. Útibúin sem hér um ræðir eru staðsett á Jótlandi, Fjóni og Grænlandi. Alls er um 12 útibú að ræða með 30.000 viðskiptavinum. Innistæður nema 3,6 milljörðum danskra kr. og útistandandi lán 3,9 milljörðum kr.

Í tilkynningu frá Færeyjabanka segir að bankinn hafi fullan hug á að útvíkka starfsemi sína út fyrir Færeyjar og séu kaupin á útibúum Sparbank hluti af þeirri stefnu. Með kaupunum verði Færeyjabanki nú annar af tveimur bönkum með starfsemi á Grænlandi.

„Þessi útibú eru öll á athyglisverðum markaðssvæðum og þau falla að stefnu okkar um að útvíkka starfsemina út fyrir Færeyjar," segir Janus Petersen forstjóri Færeyjabanka í tilkynningunni. „Viðskiptavinir á þessum svæðum munu taka eftir því að það er kominn nýr banki í bæinn."

Fram kemur í máli Petersen að góður hagnaður af rekstri Færeyjabanka á undanförnum árum geri kaupin á Sparbank möguleg. Þeir muni halda áfram stefnu sinni að þjónusta einstaklinga og smærri fyrirtæki/félög eins og verið hefur kjarninn í starfsemi þeirra.

Fyrrgreind kaup eru háð samþykki danska fjármálaeftirlitsins. Færeyjabanki er skráður í kauphöllina.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×