Viðskipti innlent

Seinagangur eitt þúsund kröfuhafa

Slitastjórn Kaupþings hafa borist rúmlega eitt þúsund kröfur eftir að sex mánaða frestur til að lýsa kröfum í bankann rann út fyrir tæpri viku. Þrátt fyrir rúman tíma til að senda inn kröfurnar eru mörg bréfanna dagsett á milli jóla og nýárs. Leiða má líkum af því að slæmt veður víða í Evrópu undanfarnar vikur hafi haft áhrif á að umrædd bréf bárust ekki fyrr en fresturinn var runnin út. Samkvæmt heimildum fréttastofu er að megninu til ekki um að ræða háar kröfur.

Kröfulýsingarfrestur rann út 30. desember. Í dag hafa 23 þúsund kröfur verið skráðar en slitastjórn Kaupþings áætlar að í heild hafi borist um 27 til 29 þúsund kröfur innan frestsins.

Á síðustu vikum hafa allt að 30 manns unnið fyrir slitastjórn Kaupþings við móttöku, skráningu og yfirferð krafna. Slitastjórn bankans gerir ráð fyrir að að ljúka skráningu á næstunni og birta kröfuskrá á vefsvæði fyrir kröfuhafa 22. janúar næstkomandi.


Tengdar fréttir

Hæsta krafan í Kaupþing nemur 200 milljörðum

Hæsta krafan í Kaupþing nemur 200 milljörðum kr. en sú lægsta nemur 250 kr. Kröfur í Kaupþing hafa borist frá 111 löndum en flestar þeirra koma frá Þýskalandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×