Viðskipti innlent

Útgáfa verðtryggðra bréfa jákvætt skref

Útgáfa verðtryggðra bréfa er jákvætt skref hjá ríkissjóði, að mati Greiningardeildar Íslandsbanka. Það mun skapa eðlilegri hvata fyrir hlut ríkisfjármála í hagstjórninni ef ríkissjóður ber verðtryggðar skuldir á móti þeim stóra hluta skatttekna sinna sem segja má að sé verðtryggður, beint eða óbeint, að fram kemur í Morgunkorni greiningardeildarinnar.

Næstkomandi föstudag verða haldin tvö ríkisbréfaútboð hjá Lánamálum ríkisins. Annars vegar er útboð klukkan 11 þar sem í boði er ríkisbréfaflokkurinn RIKB11, og hins vegar er útboð klukkan 14 þar sem ný útgáfa verðtryggðra ríkisskuldabréfa mun líta dagsins ljós eftir alllangt hlé. Flokkurinn hefur auðkennið RIKS 21 0414 og er með árlegum vaxtagreiðslum en höfuðstóllinn greiðist út í einu lagi á lokagjalddaga, ólíkt íbúðabréfum Íbúðalánasjóðs.

„Eftir því sem verðtryggð skuldabréfaútgáfa ríkissjóðs eykst munu stjórnvöld hafa sterkari hvata til að stuðla að lágri verðbólgu. Raunin er enda sú meðal þróaðra ríkja að það er fyrst og fremst hið opinbera, auk stórra veitufyrirtækja, sem skuldar verðtryggt öfugt við fyrirkomulagið hér á landi þar sem heimilin eru stærstu verðtryggðu skuldunautarnir," segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×