Viðskipti innlent

Hrein eign lífeyrissjóðanna jókst um 31 milljarð í desember

Hrein eign lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris var 1.794 milljarðar kr. í lok desember síðastliðins og jókst um 31 milljarð kr. í mánuðinum samkvæmt tölum sem Seðlabankinn birti í gær. Þar af jókst innlend verðbréfaeign um 24,2 milljarða kr. og erlend verðbréfaeign um 14,3 milljarða kr. Sjóðir og bankainnistæður lækkuðu hins vegar um 4,3 milljarða kr. í mánuðinum.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að af einstökum eignaliðum munar mestu um 17,6 milljarða kr. hækkun á ríkisbréfaeign sjóðanna. Þetta endurspeglar lækkun ávöxtunarkröfu óverðtryggða bréfa í desembermánuði sem og kaup lífeyrissjóða á ríkisbréfum en þeir hafa verið mjög atkvæðamiklir í síðustu ríkisbréfaútboðum og þá stórtækir kaupendur í lengsta flokki ríkisbréfa, þ.e. RIKB25.



Í lok desember 2009 hefur hrein eign lífeyrissjóðanna hækkað um 203 milljarða kr. frá sama tíma fyrir ári sem jafngildir hækkun upp á 12,8% að nafnvirði. Sé tekið tillit til verðbólgu nemur hækkunin 4,9%. Í krónum talið er hrein eign lífeyrissjóðanna hærri en hún var fyrir hrun bankanna. Þannig var hrein eign lífeyrissjóðanna í lok desember 23,1 milljarðar kr. hærri en hún var í lok september sem jafngildir 1,3% hækkun að nafnvirði.

Að raunvirði er hrein eign sjóðanna þó lægri en hún var fyrir hrun, eða sem nemur um 4%. Þó ber að hafa í huga að enn eru ekki öll kurl komin til grafar varðandi endanlegt tap sjóðanna af fyrirtækjaskuldabréfum og fleiri eignum í kjölfar bankahrunsins. Liggur því nokkur óvissa um endanlegt mat á eignum lífeyrissjóðanna og ber þess vegna að taka mati á hreinni eign sjóðanna með fyrirvara. Auk þess eru iðgjaldagreiðslur í íslenska lífeyrissjóði mun hærri en lífeyrisgreiðslur og er því raunávöxtun sjóðanna töluvert minni en sem nemur raunbreytingu á hreinni eign þeirra frá einum tíma til annars.



Stærsta áfallið fyrir sjóðina í kjölfar bankahrunsins var af innlendri hlutabréfaeign. Í lok september 2008 áttu lífeyrissjóðirnir 150,7 milljarða kr. í innlendum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum en mánuði síðar var sú eign komin niður í 41,6 milljarða kr.

Staða þeirra á innlendum hlutabréfamörkuðum er enn sáralítil og nú í lok desember síðastliðinn var eign sjóðanna í innlendum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum 41,5 milljarðar kr. sem svarar til 2,3% af hreinni eign þeirra. Á hinn bóginn var vægi erlendra hlutabréfa og hlutabréfasjóða af hreinni eign í lok desember 22,6%.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×