Erlent

Ræddu við námumennina

Eftirlifandi úr flugslysinu ræðir hér við námumennina í gegnum sjónvarpskapal.
Eftirlifandi úr flugslysinu ræðir hér við námumennina í gegnum sjónvarpskapal. Mynd/AFP
Eftirlifendur úr flugslysi hafa heimsótt námumennina í Chile til að blása þeim von í brjóst. Mennirnir hafa nú verið fastir neðanjarðar í mánuð.

Þrjátíu og þrír Chile-búar hafa nú verið fastir neðanjarðar í mánuð, en þeir festust í jarðnámu þegar námagöng féllu saman í ágúst. Mennirnir búa við þröngan kost í litlu rými á 700 metra dýpi, en það er eins og ef tæplega 10 Hallgrímskirkjum yrði staflað hverri ofan á aðra.

Fjórir úrúgvæískir eftirlifendur úr hræðilegu flugslysi í Andesfjöllunum árið 1972 heimsóttu mennina í gær og röbbuðu við þá í gegnum sjónvarpskapal. Eftirlifendurnir gengu í gegnum svipaða þolraun þegar þeir sátu fastir uppi í fjalli í 72 daga áður en þeim var bjargað, og þurftu meðal annars að leggja sér látna félaga sína til munns, en kvikmyndin Alive var byggð á raunum þeirra.

Þeir sögðu námamönnunum að gefa ekki upp vonina, og það væri stórkostlegur hópur sem ynni að því að frelsa þá úr prísundinni. Námamennirnir þökkuðu hlýhuginn og vonuðust til að geta faðmað þá að sér þegar þeir losnuðu úr námunni. Námamennirnir töluðu einnig við fjölskyldur sínar um sjónvarpskapalinn í gær.

Yfirvöld í Chile vonast til að hægt verði að bjarga mönnunum með því að bora til þeirra göng á næstu mánuðum. Þangað til hefur mönnunum verið úthlutuð ýmis verkefni til að halda þeim uppteknum.

Í huga flugslysseftirlifendanna fjögurra er enginn vafi á að hægt verði að bjarga mönnunum á lífi, en Breska ríkisútvarpið hefur eftir einum þeirr að hið versta sé þegar yfirstaðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×