Viðskipti innlent

Hafa 60 daga frest til útreikninga á ólögmætum lánum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árni Páll Árnason er efnahags- og viðskiptaráðherra.
Árni Páll Árnason er efnahags- og viðskiptaráðherra.
Frumvarp Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, um gengisbundin lán varð í dag að lögum. Þetta þýðir að lánastofnanir hafa nú 60 daga frest til útreikninga á ólögmætum gengisbundnum bíla- og fasteignveðlánum.

Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu segir að lögin miði að skilvirkni í úrlausn, útreikningum og endurgreiðslu ólögmætra gengisbundinna lána, þrátt fyrir hátt flækjustig, t.d. vegna eigendaskipta, greiðslna ábyrgðarmanna og ólíkrar samningsgerðar lána. Jafnframt stuðli lögin að sanngirni gagnvart öllum lántakendum gengisbundinna fasteignaveðlána og bílalána, þrátt fyrir mismunandi gerðir lánanna. Dráttarvextir og vanskilagjöld reiknist ekki á lánin og lántakendum býðst kostur á að velja á milli mismunandi vaxtakjara til framtíðar.

Ráðuneytið segir að lögin séu jafnframt nauðsynlegur grundvöllur þess að unnt verði að takast á við greiðsluvanda lánataka með yfirveðsettar eignir á grundvelli nýlegs samkomulag ríkisstjórnarinnar, lánastofnanna og lífeyrissjóða um aðgerðir vegna skulda- og greiðsluvanda heimilanna. Það samkomulag feli meðal annars í sér að lántakendum í greiðsluvanda með yfirveðsettar eignir býðst að fá eftirstöðvar skulda færðar niður að 110% af verðmæti fasteignar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×