Innlent

Össur vill heimsækja Gazasvæðið

Össur vill heimsækja Gaza um leið og tækifæri gefst.
Össur vill heimsækja Gaza um leið og tækifæri gefst.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra flutti ræðu á aðalfundi Félagsins Ísland-Palestína í Iðnó í gærkvöldi. Össur fjallaði um málefni Palestínu og á hvern veg Ísland hefur stutt Palestínumenn bæði á stjórnmálasviði og með beinum stuðningi við ákveðin verkefni, meðal annars á sviði heilsugæslu, en Ísland viðurkennir og styður sjálfákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar, rétt hennar til að stofna sjálfstætt ríki og önnur þjóðarréttindi Palestínumanna.

Í tilkynningu frá félaginu segir að það sem mesta athygli hafi vakið í ræðu Össurar hafi verið viljayfirlýsing hans um að heimsækja Gazasvæðið um leið og tækifæri gefst. „Össur minnti á það mikilvæga fordæmi sem ferð Steingríms Hermannssonar þáverandi forsætisráðherra hefði verið er hann fyrir réttum 20 árum fór til Túnis og heimsótti Yasser Arafat, forseta Palestínu. Arafat hafði þá aðsetur í Túnis og leiddi þar útlagastjórn PLO, Frelsissamtaka Palestínu sem voru viðurkennd sem hinn lögmæti fulltrúi allrar palestínsku þjóðarinnar, jafnt innan herteknu svæðanna sem í flóttamannabúðum utan Palestínu," segir í tilkynningunni.

„Á þeim tíma, eða í maí 1990, var Yasser Arafat og PLO á lista Bandaríkjastjórnar yfir hryðjuverkamenn. Arafat hafði verið neitað um vegabréfsáritun til Bandaríkjanna er hann hugðist ávarpa Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. SÞ brugðust við með því að flytja Allsherjarþingið tímabundið til Genfar í nóvember 1988 til að hlýða á forseta Palestínu," segir ennfremur en Steingrímur varð fyrstur vestrænna þjóðarleiðtoga til að heimsækja forseta Palestínu í útlegð. „Litið var á þessa heimsókn sem mjög mikilvægan skerf til viðurkenningar á þjóðarréttindum palestínsku þjóðarinnar," segir að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×