Innlent

420 milljarða vantar upp á skuldbindingar

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon

420 milljarða króna vantar upp á að ríkissjóður hafi fjármagnað áfallnar framtíðarskuldbindingar vegna eftirlauna opinberra starfsmanna.

Þar af vantar um 350 milljarða inn í svokallaða B-deild Lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna (LSR) og um 40 milljónir inn í Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga en einnig vantar nokkuð upp á að A-deild LSR standist tryggingafræðilegar kröfur.

Þetta kom fram við umræður á Alþingi í gær. Til samanburðar voru tekjur ríkissjóðs áætlaðar 468 milljarðar króna í fjárlagafrumvarpi ársins 2010.

B-deild LSR heldur utan um réttindi ríkisstarfsmanna sem hófu störf fyrir 1996. Réttindi þeirra eru ekki háð ávöxtun fjármuna LSR líkt og í öðrum lífeyrissjóðum.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði að B-deildin gæti staðið undir skuldbindingum fram til 2025. Auka þurfi inngreiðslur til að standa undir skuldbindingum eftir þann tíma. „Við þurfum endilega að fá alla saman að þessu borði til að skoða og kortleggja framtíðina,“ sagði Steingrímur.

„Þetta er stórt og mikið samfélagslegt verkefni sem varðar okkur öll.“ Vandinn sé meðal annars sá að greiðslur inn í LSR voru ekki nægilegar á árunum 2004-2007 þegar afgangur á ríkissjóði var mestur.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði ósanngjarnt að lífeyrisþegi á almennum markaði, sem nú hefur skert réttindi vegna taps almennra lífeyrissjóða vegna hrunsins, þurfi jafnframt að þola það að hluti þeirra skatta, sem hann greiðir, renni í að standa undir óskertum lífeyri opinberra starfsmanna.

Fram kom hjá fjármálaráðherra að þótt lífeyrissjóðirnir hafi þurft að skerða réttindi í kjölfar hrunsins séu réttindin sem þeir veita nú svipuð og var árið 2006. Opinberir starfsmenn hafi ekki notið aukinna réttinda frá 2006 fram að hruni í sama mæli og lífeyrisþegar á almennum markaði.

Vigdís Hauksdóttir, Framsóknarflokki, sagði að rétt væri að kanna möguleika á að leggja niður LSR, og nota eignir sjóðsins í að laga til í rekstri ríkisins. Fjármagna eigi lífeyrisgreiðslur opinberra starfsmanna úr gegnumstreymissjóði. „Þeir eru hvort sem er með ríkisábyrgð,“ sgaði Vigdís.

peturg@frettabladid.is

Bjarni Benediktsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×