Viðskipti innlent

Framkvæmdastjóri hjá Seðlabankanum flaug í boði Glitnis og Milestone

Breki Logason skrifar
Steingrímur Wernersson. Sturla segir að hann og Steingrímur séu bestu vinir. Mynd/ VB.
Steingrímur Wernersson. Sturla segir að hann og Steingrímur séu bestu vinir. Mynd/ VB.
Framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabanka Íslands flaug tvisvar með einkaþotu sem Glitnir og Milestone leigðu saman. Hann segir þá Steingrím Wernerson vera bestu vini og flugu þeir á þotunni í frí. Á farþegarlistum koma meðal annars fyrir nöfn alþingismanns og aðstoðarmanns ráðherra í núverandi ríkisstjórn.

Sigurður Sturla Pálsson hefur starfað í Seðlabanka Íslands frá árinu 2001, en hann er framkvæmdarstjóri alþjóða- og markaðssviðs. Nafn hans er á 110 manna lista sem birtur er í DV í dag yfir þá sem flugu með umræddri þotu.

Í samtali við fréttastofu í morgun segist Sturla tvisvar hafa flogið með þotunni, í bæði skiptin var hann á leið í frí með Steingrími Wernersyni vini sínum. Hann segir að Steingrímur hafi tjáð sér á þessum tíma að þotan hafi verið í eigu þeirra Wernersbræðra. Hann vill ekki fara nánar út í hvert þeir flugu en segir þá eyða miklum frítíma saman. Sigurður segist ekki sjá neitt athugavert við að hann hafi flogið með þotunni.

Í DV í morgun kemur einnig fram að Bogi Nilsson fyrverandi ríkissaksóknari hafi flogið með þotunni. Bogi segist einnig hafa verið á leið í frí en á þeim tíma hafi hann ekki starfað sem saksóknari. Til stóð, haustið 2008, að Bogi myndi stýra vinnu við gerð skýrslu um starfsemi Glitnis, Landsbankans og Kaupþings á árunum fyrir bankahrunið. Hann afþakkaði hinsvegar boðið.

Fleiri áhugaverð nöfn eru á listanum. Má þar nefna Bjarna Ármannsson, Lárus Welding, Róbert Wessmann, Þorgils Óttar Mathiesen og Þór Sigfússon fyrrum forstjóra Sjóvár.

Núverandi aðstoðarmaður samgönguráðherra Ingvar Sverrisson er einnig á listanum, en hann tók við sem aðstoðarmaður í september á síðasta ári. Þar áður starfaði hann á auglýsingastofunni Góðu Fólki.

Alþingismaðurinn Tryggvi Þór Herbertsson er einnig á listanum en hann starfaði áður sem forstjóri Askar Capital.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×