Handbolti

Hreiðar Levý: Erum orðnir nettar hetjur í bænum

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Hreiðar Levý Guðmundsson spilar í dag með Emsdetten gegn Bergischer um sæti í úrslitarimmu við Dormagen um laust sæti í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta á næsta tímabili. Emsdetten vann fyrri leikinn 33-27 og er því í vænlegri stöðu.

„Við vorum komnir níu mörkum yfir þegar það voru sex mínútur eftir, þetta hefði því getað verið betra en var nokkuð gott," sagði Hreiðar Levý Guðmundsson markmaður Emsdetten. Patrekur Jóhannesson tekur við liðinu í sumar og Fannar Þór Friðgeirsson gengur í raðir þess á sama tíma.

„Það er fínasta sjálfstraust í liðinu fyrir leikinn. Fyrir mína parta vil ég bara fara í leikinn og vinna hann, við viljum ekki halda neinu forskoti eða neitt slíkt. Liðið er líka búið að vinna 18 af síðustu 20 leikjum og við viljum ekki tapa neinu þar," sagði Hreiðar sem segir fyrri leikinn hafa verið einn þann allra skemmtilegasta sem hann hefur spilað með félagsliði.

„Það voru um 4.000 manns í húsinu. Það var bara trufluð stemning, algjörlega trufluð. Áhorfendur eru nálægt vellinum og líklega kemst úrslitaleikurinn í Svíþjóð sem ég spilaði næst þessu, en við töpuðum þar svo þetta var kannski skemmtilegra."

„Við höfum verið að berjast fyrir þessu allan veturinn og þetta er besti árangur félagsins í sögunni. Það hefur verið í einhver 20 ár í þessari deild held ég. Við erum líka nettar hetjur hérna í bænum," sagði Hreiðar hress.

Tímabilið hefur verið langt og strangt hjá landsliðsmanninum en hann segist fá aukakraft í útihlaupunum þegar hann sér fyrir endann á tímabilinu. Fram undan eru jú mikilvægustu leikir tímabilsins.

„Ég spila seinni leikinn, svo kem ég heim á sunnudaginn og spila leikina tvo gegn Dönum í næstu viku og fer svo vonandi strax aftur út til að spila við Dormagen á sunnudaginn," sagði Hreiðar sem segir að þetta sé ekkert of mikið fyrir sig, enda í besta formi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×