Viðskipti innlent

Skuldatryggingaálag ríkissjóðs heldur áfram að lækka

Skuldatryggingaálag á ríkissjóð Íslands hefur lækkað nokkuð síðustu daga. Nú í morgun var álagið til 5 ára 615 punktar (6,15%), en það stóð í 675 punktum í byrjun síðustu viku.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þessi lækkun áhættuálagsins á íslenska ríkið er þó ekkert einsdæmi. Þannig hefur skuldatryggingarálag annarra landa sem glíma við mikinn halla á opinberum fjármálum, líkt og Ísland, verið að lækka.

Nú í morgun var 5 ára skuldatryggingarálag Grikklands 339 punktar sem er töluvert lægra en það var í síðustu viku, en þá fór það upp í 428 punkta. Telja má líklegt að lækkun áhættuálagsins á Grikkland endurspegli væntingar markaðsaðila um að ESB komi til með að aðstoða Grikkland í fjárhagserfiðleikum þess.

Þetta getur svo aftur haft áhrif í þá átt að áhættufælni markaðsaðila minnkar almennt og því lækkar áhættuálag á mörkuðum. Þrátt fyrir lækkunina síðustu daga er skuldatryggingaálagið á íslenska ríkið enn hátt og 200 punktum hærra en það var í upphafi þessa árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×